Körfubolti

Russell Westbrook hoppaði upp fyrir Magic og fékk kveðju frá honum á Twitter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Getty/Tim Warner
Russell Westbrook er kominn upp í annað sætið yfir þá leikmenn sem hafa náð flestum þrennum í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.

Russell Westbrook var með þrennu í fyrsta sigurleik Houston Rockets á tímabilinu sem var jafnframt fyrsti sigurleikur Westbrook með Houston. Russell kom til Houston frá Oklahoma City Thunder í sumar þar sem hann var með þrennu að meðaltal þrjú undanfarin tímabil.

Westbrook var með 28 stig, 10 fráköst og 13 stoðsendingar þegar Houston Rockets vann 126-123 sigur á New Orleans Pelicans.





Þetta var 139. þrenna Russell Westbrook í NBA-deildinni og með henni komst hann upp fyrir sjálfan Magic Johnson og upp í annað sæti listans. Efstur er áfram Oscar Robertson.

Houston Rockets hafði tapað fyrsta leiknum með Russell Westbrook og James Harden hlið við hlið en landaði sigrinum á móti Pelíkönunum. Fyrsti leikurinn tapaðist á móti Milwaukee Bucks og þar var Westbrook með 24 sitg, 16 fráköst og 7 stoðsendingar.

Oscar Robertson náði 181 þrennu á sínum ferli og Westbrook á því nokkuð í land að ná efsta sætinu. Hann var hins vegar með 34 þrennur á síðustu leiktíð og vantar 42 til að jafna Robertson á toppnum.





Magic Johnson var ekkert að gráta þessar fréttir opinberlega og sendi Russel kveðju á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Hamingjuóskir til Russell Westbrook fyrir að komast upp fyrir mig og vera sá sem hefur náð næstflestum þrennum í sögu NBA,“ skrifaði Magic.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×