Innlent

Skilyrðum breytt og á annað hundrað nemendur útilokaðir frá námi um áramót

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eyjólfur Guðmundsson, rektor við Háskólann á Akureyri.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor við Háskólann á Akureyri. Háskólinn á Akureyri
Allt stefnir í að á annað hundrað manns í diplómanámi í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri fái ekki áframhaldandi skólavist um áramótin eins og þau töldu sig eiga rétt á þegar þau skráðu sig í námið. Fjörutíu nemendur munu í desember komast áfram í starfsnám á vegum Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu en aðrir þurfa frá að hverfa.

Hið sama gildir um nýnema í öðru námi við HA þar sem samkeppnispróf eða fjöldatakmarkanir eru við lýði. Nemendurnir í lögreglufræðum fengu hins vegar þær upplýsingar í aðdraganda þess að þeir skráðu sig í námið að þau gætu verið áfram í námi við skólann.

„Þeir sem einhverja hluta vegna eru ekki valdir, að því gefnu að þeir standist þau skilyrði er sett eru í lögreglulögum, geta haldið áfram við nám í lögreglufræðum og sótt um aftur að ári liðnu,“ segir í pósti sem nemendur fengu sendan í umsóknarferlinu.

Stöðug fjölgun hefur orðið á nemendum við Háskólann á Akureyri. Þeim hefur fjölgað um 50 prósent á fimm árum.
„Þá er einnig möguleiki að klára námið án starfsréttinda. Lögreglufræðigráða án starfsréttinda gefur möguleika á ýmsum öðrum störfum, bæði innan lögreglu eða utan hennar.“

Í tölvupósti til nýnemanna sem sendur var í gær kemur fram að yfirstjórn HA hafi gefið út að ekki verði unnt að veita þeim sem ekki standast kröfur háksólans og MSL um inntöku í starfsnám skólavist á vormisseri.

„Þeir nýnemar sem ekki komast inn í 40 nemenda starfsnámshópinn um áramótin þurfa að hætta námi að loknu haustmisseri. Þeir sem hafa hug á að reyna aftur við inntöku í starfsnám sækja um sem nýnemar næsta vor þegar opnar fyrir rafrænar umsóknir vegna skólaársins 2020-2021.“


Tengdar fréttir

16 þúsund vilja í háskólanám

Talsverð fjölgun er á umsóknum um háskólanám, en tæplega 16 þúsund umsóknir bárust háskólunum í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×