
Ferjuflugið til Katalóníu gekk að óskum og lenti fyrri vélin um fimmleytið síðdegis en sú seinni klukkan rúmlega sjö í gærkvöldi. Búist er við að Icelandair ferji næstu MAX-vél um miðja næstu viku.
„Þetta gekk allt eins og til var ætlast, og engar bilanir og ekkert óvænt sem kom upp á,“ sagði Þórarinn Hjálmarsson flugstjóri og flotastjóri MAX-véla Icelandair, í samtali við Vísi í dag, en vélarnar flugu inn yfir meginlandið á norðvesturhorni Spánar.
Icelandair hafði upphaflega valið Toulouse í Suður-Frakklandi sem vetrargeymslu fyrir MAX-vélarnar. Til stóð að hefja ferjuflugið í síðustu viku og var fyrsta flug ráðgert þriðjudaginn 1. október. Daginn áður töldu Icelandair-menn sig vera komna með grænt ljós á flugið þegar kom krafa frá Frökkum um að þotunum yrði ekki flogið yfir þéttbýlissvæði.

„Það er bara út af leyfismálum og öðru slíku. Það eru kannski ekkert allir sem vilja fá vélarnar inn til sín og Frakkarnir eru þar á meðal. Kannski er það bara út af Airbus, - ég veit það ekki,“ sagði Þórarinn í fréttum Stöðvar 2, en höfuðstöðvar Airbus eru einmitt í borginni Toulouse.
Sjá frétt Stöðvar 2: MAX-vél Icelandair flýgur í fyrsta sinn frá því í mars

Flugsíðan Simple Flying sagði báðar MAX-vélarnar í gær hafa flogið í 19.000 feta hæð og verið á um 270 hnúta hraða, eða 310 mílna hraða á klukkustund. Undir eðlilegum kringumstæðum flygju þessar þotur í 35.000 feta hæð og á flughraða í kringum 450 hnúta.

Fjórir þjálfunarflugstjórar Icelandair fljúga öllum vélunum, þeir Þórarinn Hjálmarsson, Guðjón S. Guðmundsson, Kári Kárason og Franz Ploder.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi um flug MAX-vélanna með viðtali við flugstjórann: