Íslensk stjórnvöld hyggjast fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni sem samþykkt var á þingi ILO í júní síðastliðnum.
Samþykktin, sem hefur nú verið þýdd á íslensku, hefur verið sett inn í samráðsgátt stjórnvalda ásamt tilmælum sem felast í nánari ábendingum og tillögum. Frestur til að veita umsagnir er til 11. nóvember.
Með samþykktinni eru lagðar þær skyldur á stjórnvöld og atvinnurekendur að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir hvers kyns ofbeldi og áreitni á vinnustöðum.
Marie Clarke Walker, einn leiðtoga Alþýðusambands Kanada, hélt erindi um samþykktina á #metoo-ráðstefnunni í Hörpu í síðasta mánuði. Clarke Walker, sem sat í samninganefnd ILO, sagði þá við Fréttablaðið að hún vonaðist til að Norðurlöndin yrðu fyrsta svæði heimsins til að fullgilda samþykktina.
