Hertogahjónin af Sussex, þau Harry Bretaprins og Meghan Markle, koma til Afríku í dag ásamt fjögurra mánaða gömlum syni sínum, Archie, en um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn þeirra hjóna með syninum.
Fjölskyldan verður í Afríku í tíu daga. Heimsóknin byrjar í Höfðaborg í Suður-Afríku og munu Meghan og Archie dvelja þar í landi meðan á heimsókninni stendur.
Harry heimsækir einnig Malaví, Botsvana og Angóla þar sem hann mun minnast baráttu móður sinnar, Díönu prinsessu, gegn jarðsprengjum. Þá mun Meghan halda ræðu í Suður-Afríku um ofbeldi gegn konum.