Enski boltinn

Guardiola í varnarvandræðum vegna meiðsla Laporte

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Frakkinn meiddist í fyrri hálfleik leiks City og Brighton
Frakkinn meiddist í fyrri hálfleik leiks City og Brighton vísir/getty
Manchester City gæti verið í varnarvandræðum í næstu leikjum eftir að Aymeric Laporte var borinn af velli á börum í leik City og Brighton í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld.

Laporte lenti í samstuði við Adam Webster og eftir að hafa fengið aðhlynningu á vellinum var ljóst að bera þurfti hann af velli og að hann myndi ekki halda áfram keppni.

„Hann er á spítala. Þetta lítur ekki vel út. Við munum vita meira á morgun en hann verður frá í einhvern tíma,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, eftir leikinn í gær.

Manchester City fékk ekki varnarmann í glugganum í sumar þrátt fyrir að Vincent Kompany hafi yfirgefið félagið. Josh Stones hefur misst af síðustu leikjum vegna meiðsla og er varnarlína Guardiola orðin nokkuð þunn.

Knattspyrnustjórinn sagði að miðjumaðurinn Fernadinho gæti þurft að leysa varnarhlutverk í fjarveru Laporte.

„Fernandinho er varnarsinnaður miðjumaður, það vita allir, en ég held hann geti leyst miðvarðarstöðuna.“

„Hann er snöggur, klár, skallar boltann vel. Hann getur leyst báðar stöður.“

Laporte var kallaður í landsliðshóp Frakka sem mætir Andorra og Albaníu í undankeppni EM 2020. Þar átti hann möguleika á því að spila sinn fyrsta A-landsleik fyrir Frakkland, en nú verður líklega ekkert úr því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×