Telegraph segir að það sé næstum því öruggt að ensku úrvalsdeildarfélögin muni kjósa það á næstu fundum sínum að breyta aftur til baka þannig að félagsskiptaglugginn í ensku úrvalsdeildinni loki á sama tíma og hann gerir á Spáni, á Ítalíu, í Þýskalandi og annars staðar í Evrópu.
Þrjú af félögunum sem börðust fyrir breytingunni fyrir tveimur árum vilja nú að það verði kosið aftur um málið á næsta fundi félaganna sem verður 12. september.
Premier League clubs to vote to realign transfer window with Europe after loss of bargaining power this summer https://t.co/MXWiS568Lq
— Telegraph Football (@TeleFootball) September 3, 2019
Það er samt ekkert víst að kosið verði um málið strax á þessum fundi í september því líklegt er að kosningunni verði frestað fram í nóvember þannig að félögin fái lengri tíma til að skoða kostina og gallana frá öllum hliðum.
Árið 2017 voru fjórtán félög í ensku úrvalsdeildinni með því að loka félagsskiptaglugganum einum eða tveimur dögum áður en fyrstu leikir tímabilsins færu fram. Manchester City, Manchester United, Crystal Palace, Watford og Swansea kusu öll á móti því en Burnley sat hjá.
Vinsældir breytingarinnar hafa minnkað mikið á þessum tveimur árum og nú eru aðeins níu félög enn með því að halda sig við það að loka glugganum fyrir tímabil.
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, er einn af þeim sem hafa verið hvað ósáttastir með fyrirkomulagið en það er hans mat og fleiri að ensku félögin séu fyrir vikið í verri samningsstöðu gagnvart hinum evrópsku félögunum.
Ensku félögin eiga nefnilega á hættu að missa sterka leikmenn eftir að þau hafa misst af möguleikanum að fá einhvern leikmann í staðinn.