Lífið

Spæjara­skóli fyrir krakka settur á lag­girnar á Akur­eyri

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Krakkar á aldrinum 9-12 ára munu geta verið áskrifendur að spæjarakössum.
Krakkar á aldrinum 9-12 ára munu geta verið áskrifendur að spæjarakössum. getty/George Rinhart/facebook
„Þetta eru í rauninni ráðgátukassar í áskrift fyrir 9-12 ára krakka. Hugmyndin er að í hverjum kassa er ein saga, bara ráðgátusaga sem að áskrifandinn þarf að aðstoða aðalpersónurnar við,“ segir Lína Rut Olgeirsdóttir, einn stofnenda Spæjaraskólans sem hefur verið settur á laggirnar á Akureyri. Spæjaraskólinn eru áskriftakassar fyrir krakka þar sem leysa þarf hinar ýmsu ráðgátur.

Sagan í fyrsta áskriftakassanum ber heitið Listaverkaráðgátan en í honum þarf áskrifandinn að aðstoða Klöru Sif og Atla Pavel, aðalpersónur sagnanna, að leysa ráðgátuna. Listaverki hefur verið stolið af listasafni bæjarins og þarf að finna það. Þau lenda í ýmsum vandræðum og kemur þá áskrifandinn inn í söguna og aðstoðar þau við að leysa vandamálin. Lína ræddi þetta í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Áskrifendur fá kassa sem inniheldur nokkur umslög sem eru merkt og nokkrir lausir hlutir. Í hverju umslagi er hluti af sögunni og þraut og til að vita hvort þrautin hafi verið leyst rétt er farið inn á vefsvæði skólans og niðurstaðan slegin inn. Þá kemur upp hvort sú niðurstaða sé rétt eða röng. Sé niðurstaðan rétt má opna næsta umslag.

„Við erum búin að vera að vinna að þessu í allt sumar en við vonumst til að fyrsti kassinn komi út fyrir lok næsta mánaðar.“

Skráning áskrifenda er hafin og Lína segist búast við að fyrsti kassinn verði sendur út 27. september. Kassarnir verða sendir út um allt land en hægt verður fyrir áskrifendur að sækja kassana á Akureyri, í Reykjavík og á Hvammstanga. Ný saga mun koma út annan hvern mánuð.

„Ég er búin að nota mín eigin börn svolítið í tilraunastarfsemi og í næstu viku erum við að fara í prufukeyrslu sem verður stærri. Sjá hvort það gangi allt upp,“ segir Lína. Hún segir ráðgátuna ekki vera jafn langa og bók en að Listaverkagátan sé til dæmis sjö kaflar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.