Íbúar Malmö héldu minningarathöfn í gærkvöld um sænsku konuna sem skotinn var til bana í borginni í gær. Þeir lögðu blóm og kerti á gangstéttina þar sem konan, sem var um þrítugt, hafði verði að ganga með barni sínu og barnsföður þegar dökklæddur maður birtist óvænt og skaut hana í höfuðið, sem sjónarvottar hafa lýst sem aftöku.
Karlmaður hefur verið handtekinn í tengslum við morðið og var hann yfirheyrður í gær en lögreglan hefur ekki gefið upp hver aðild hans að morðinu kann að hafa verið. Við rannsókn málsins kannar lögreglan meðal annars hvort morðið tengdist vitnisburði konunnar í morðmáli eða afbrotasögu barnsföður hennar.
