Körfubolti

Heldur því fram að James Harden sé betri skorari en Jordan var

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan og James Harden.
Michael Jordan og James Harden. Vísir/Getty
Framkvæmdastjóri Houston Rockets er svo ánægður með stjörnuleikmann sinn James Harden að hann er farinn að tala um að hann sé betri en sjálfur Michael Jordan.

Maðurinn heitir Daryl Morey og er þekktur fyrir að nýta sér tölur og tölfræði við að byggja upp sitt körfuboltalið. Hann stíll hefur verið kallaður „Moreyball" sem vísun í Moneyball í hafnarboltanum.  

Það er einmitt tölfræðin sem fær Daryl Morey til að halda því fram að James Harden sé betri en Michael Jordan.





„Það eru bara staðreyndir að James Harden er betri skorari en Michael Jordan var,“ sagði Daryl Morey við Matthew Haag í spjalli í hlaðvarpsþættinum Selfmade with Nadeshot.

„Þú lætur James Harden fá boltann vitandi það hvað það er gefa liðinu mörg stig sem er þannig sem á að meta sóknarleik. Ef við skoðum framleiðslu á stigum þá er James Harden langefstur í NBA-sögunni,“ sagði Morey.

„Hann var líka númer eitt hjá Oklahoma City Thunder en þá var hann að koma inn á bekknum og menn tóku ekki eins vel eftir þessu,“ sagði Morey en Harden spilaði með Kevin Durant hjá OKC.

„Það er alveg hægt að hlusta á móttökin sem eru að ef þú settir Michael Jordan inn í lið í deildinni í dag þá myndi hann gera meira James Harden. Það er mögulegt en ef við erum bara að skoða það sem leikmenn hafa gert inn á vellinum þegar kemur að því að skora í NBA sögunni þá er James Harden bestur. Ég veit að ég reiti fólk til reiði með þessu en þetta er bara staðreynd,“ sagði Morey.

James Harden skoraði 36,1 stig að meðaltali í leik á síðustu leiktíð en var með 30,4 stig í leik tímabilið á undan þegar hann var kosinn bestur.

Michael Jordan náði einu sinni að skora fleiri stig í leik á tímabili en hann var með 37,1 stig í leik leiktíðina 1986-87. Þá var Jordan með 40 mínútur spilaðar í leik og 27,8 skot reynd í leik en á síðasta tímabili var Harden með 24,5 skot að meðaltali á 36,8 mínútum.

Harden hitti mun betur úr þriggja stiga skotum (37% á móti 18%) og var líka með mun fleiri stoðsendingar á tveimur bestu tímabilum þessara kappa (7,5 á móti 4,6).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×