Innlent

Matvælastofnun skoðar örvandi "undrakaffi“

Birgir Olgeirsson skrifar
Kaffið inniheldur efni sem er bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins.
Kaffið inniheldur efni sem er bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins. Vísir/Getty
Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit eru með kaffi og kakó til skoðunar sem lofað er að hjálpi fólki við þyngdarstjórnun. Kaffið og kakóið inniheldur efni sem er á lista yfir bönnuð efni hjá Alþjóðlyfjaeftirlitinu WADA. Yrði einhver uppvís að notkun þess í keppni færi hann í keppnisbann.

Ingibjörg Jónsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, segir í samtali við Vísi að kaffið og kakóið innihaldi Beta Phenylethylamine sem er bannaða efnið.

Um er að ræða Valentus Slim Roast Optimum kaffi og Optimum kakó frá sama framleiðanda. Er kaffið kallað „undrakaffi“ af söluaðila.

Ingibjörg segir vörurnar sendar beint frá Bandaríkjunum til Íslands en þær eru auglýstar á samfélagsmiðlum og vef.

Hún segir tilkynningar hafa borist Matvælastofnun um þessar vörur undanfarna daga en frá Lyfjaeftirliti ÍSÍ fengust þau svör að Beta Phenylethylamine væri bannað í íþróttakeppnum vegna örvandi eiginleika.

Málið er því komið í farveg hjá Matvælastofnun sem og heilbrigðiseftirliti sem fer með eftirlit á sölu og dreifingu í sveitarfélögum. Ekki hefur þó verið ákveðið að grípa til einhverra aðgerða að svo komnu máli.

Fyrirtækið sem framleiðir þessar vörur býður upp á tekjutækifæri fyrir sjálfstæða dreifingaraðila sem deila vörunum og byggja upp teymi annarra sjálfstæðra dreifingaraðila sem gera hið sama. Þessir aðilar eru verðlaunaðir með þóknun á vörusölunni samkvæmt tekjukerfi fyrirtækisins. Tekjukerfið er með 6 mismunandi tekjuleiðir, niður margar hæðir í teyminu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×