Enski boltinn

Klopp um brotið í nótt: Vil ekki segja meira því ég vil geta farið í frí til Spánar í framtíðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Getty/Albert Foss
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var allt annað en sáttur með grófan leik leikmanna Sevilla í æfingarleik Liverpool og spænska liðsins í Bandaríkjunum í nótt.

Það var heitt í Bandaríkjunum í nótt og mikill hiti líka í leiknum. Harry Wilson fékk olnbogaskot frá Ever Banega áður en Joris Gnagon kom með hræðilega tæklingu á hinn átján ára gamla Yasser Larouci.

Í hálfleik mátti sjá Jürgen Klopp í orðaskiptum við Julen Lopetegui, knattspyrnustjóra Sevilla og það var augljóst að þýski stjórinn var allt annað en sáttur með grófan leik spænsku leikmannanna.





„Það lítur út fyrir að Larouci hafi verið heppinn en við verðum að bíða og sjá. Hann kom í hann á fullri ferð. Harry fékk líka högg á kinnbeinið og augað og það var heldur ekki í lagi,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.

„Heilt yfir þá er ég ekki hrifinn af svona hörðum leikjum. Markmiðið er að vinna boltann en það eru reglur. Ég vil samt ekki segja neitt sérstakt um þennan leik því það verður bara að fyrirsögnum. Ég vil nú geta farið í frí til Spánar í framtíðinni,“ sagði Klopp.

Klopp viðurkenndi líka að hann hati að tapa en Liverpool tapaði þarna sínum öðrum æfingarleik í Bandaríkjunum á aðeins þremur dögum. Hann var samt án markvarðar síns og allrar sóknarlínunnar en alls vantaði sjö til átta sterka leikmenn í lið Liverpool í leiknum.

„Ég get samt ekki kvartað yfir mótherjum okkur því það var ég sem valdi liðin,“ sagði Klopp.

Lið Liverpool í leiknum: Liverpool: Lonergan (Mignolet kom inn á sem varamaður), Alexander-Arnold (Hoever), Phillips (Gomez), Van Dijk (Lovren), Robertson (Larouci (Duncan), Wijnaldum (Milner), Henderson (Fabinho), Oxlade-Chamberlain (Jones), Woodburn (Kent), Wilson (Lewis) og Origi (Brewster).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×