Enski boltinn

Liverpool náði ekki að vinna leik í Bandaríkjaferðinni eftir jafntefli í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirliðarnir Bruno Fernandes hjá Sporting og Jordan Henderson hjá Liverpool tóku báðir við bikarnum í leikslok.
Fyrirliðarnir Bruno Fernandes hjá Sporting og Jordan Henderson hjá Liverpool tóku báðir við bikarnum í leikslok. gETTY/Matthew Ashton
Liverpool gerði 2-2 jafntefli við Sporting Lissabon í nótt í síðasta leik sínum í Bandaríkjaferðinni en að þessu sinni var spilað á hinum heimsfræga Yankee Stadium í New York.

Divock Origi og Georginio Wijnaldum skoruðu mörk Liverpool í leiknum. Sporting komst í 1-0 snemma í leiknum og jafnaði síðan metin í síðari hálfleiknum.





Liverpool tapaði hinum tveimur leikjum sínum í Bandaríkjaferðinni sem voru á móti Borussia Dortmund (2-3) og Sevilla (1-2). Liðið er nú á heimleið en þaðan fer liðið til Edinborgar í Skotlandi þar sem Liverpool mætir Napoli um helgina.

Bruno Fernandes, sem hefur verið mikið orðaður við Manchester United, kom Sporting í 1-0 með langskoti sem Simon Mignolet átti að verja í markinu.  

Þessi leikur var opnari en hinir tveir enda ekki nærri því eins hlýtt og var í Indiana og Boston.

Trent Alexander-Arnold lagði meðal annars upp færi fyrir báða miðverðina, Joel Matip og Virgil van Dijk, skalli Matip fór í slánna en skalli Van Dijk var varinn.





Divock Origi jafnaði metin þegar hann fylgdi eftir skoti Jordan Henderson og Georginio Wijnaldum kom Liverpool yfir eftir að sending Alex Oxlade-Chamberlain hafði skapað usla.

Simon Mignolet varði vel í tvígang undir lok hálfleiksins og sá til þess að Liverpool var 2-1 yfir í hálfleik.





Sporting byrjaði seinni hálfleikinn vel og jafnaði metin á 54. mínútu. Að þessu sinni átti umræddur Bruno Fernandes stoðsendinguna en Marcus Wendel skoraði jöfnunarmarkið.

Það var bikar í boði í þessum leik sem félögin þurfa nú að deila því ekki kom sigurmarkið. Jürgen Klopp gerði margar skiptingar í seinni hálfleiknum og þar á meðal sendi hann unga hollenska miðvörðinn Sepp van den Berg inn á völlinn í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool.

Níu daga Ameríkuferð Liverpool er því á enda og fram undan er leikur í Skotlandi og æfingaferð til Frakklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×