Tveir jarðskjálftar yfir 3 að stærð mældust tæplega 40 kílómetra norðvestur af Grímsey skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi. Snarpur skjálfti að stærð 4,3 varð öllu sunnar á svæðinu, norðnorðvestur af Siglufirði, aðfaranótt miðvikudags.
Samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum á vef Veðurstofu Íslands var fyrri skjálftinn við Grímsey 3,5 að stærð og sá seinni 3,3. Fjöldi minni skjálfta hefur fylgt í kjölfarið, sá stærsti 2,7 að stærð á sömu slóðum á þriðja tímanum í nótt.
Skjálftinn sem reið yfir aðfaranótt miðvikudags fannst víðsvegar um Norðurland, allt frá Hvammstanga í vestri og að Húsavík í austri. Veðurstofu Íslands bárust yfir 130 tilkynningar vegna skjálftans en hann má rekja til jarðskorpuhreyfinga á Tjörnesbrotabeltinu.

