Körfubolti

Fer úr NBA-deildinni til Bayern München

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Greg Monroe skorar hér á móti verðandi NBA-meisturum Toronto Raptors í úrslitakeppninni í vor.
Greg Monroe skorar hér á móti verðandi NBA-meisturum Toronto Raptors í úrslitakeppninni í vor. Getty/Vaughn Ridley
Annað tímabilið í röð þurfa Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín að glíma við lið með gamla NBA-stjörnu innanborðs.

Þýsku meistararnir í körfubolta, Bayern München, hefur náð samkomulagi við reynsluboltann Greg Monroe.

Derrick Williams var stjarna Bayern á síðasta tímabili þegar liðið vann Alba Berlín í lokaúrslitunum um meistaratitilinn. Hann hefur nú yfirgefið Þýskaland og samið við Fenerbahce í Tyrklandi.

Greg Monroe er 28 ára gamall framherji og er langt frá því að vera kominn inn á sín síðustu ár í boltanum. Þetta verður hans fyrsta tímabil í Evrópu og það er ljóst að þessu 211 sentímetra og 120 kílóa maður verður erfiður viðureignar í teignum í vetur.





Monroe hefur spilað undanfarin níu tímabil í NBA-deildinni síðast með Philadelphia 76ers. 76ers var reyndar þriðja félagið hans á tímabilinu 2018-19 því hann byrjaði það hjá Toronto Raptors og stoppaði síðan stutt hjá Boston Celtics áður en hann kom til Philadelphia.

Bestu tímabil Greg Monroe voru í búningi Detroit Pistons en hann skoraði 16,0 stig að meðaltali tímabilið 2012-13 og var með 15,9 stig og 10,2 fráköst að meðaltali 2014-15.

Monroe hefur alls spilað 632 deildarleiki í NBA og 27 leiki í úrslitakeppni. Í deildarkeppninni er hann með 13,2 stig og 8,3 fráköst að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×