Bíó og sjónvarp

Fjöldi íslenskra leikara í Eurovision-mynd Will Ferrell sem verður að hluta tekin upp á Íslandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Will Ferrell og Rachel McAdams leika íslenska söngvara í myndinni.
Will Ferrell og Rachel McAdams leika íslenska söngvara í myndinni. Vísir/Getty
Eurovision-mynd bandaríska gamanleikarans Will Ferrell verður tekin upp að hluta hér á landi og mun fjöldi Íslendinga fara með hlutverk í henni. Þetta herma heimildir Vísis en í myndinni mun Will Ferrell og Rachel McAdams leika íslenska söngvara sem munu væntanlega keppa í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision.

Ásamt því að leika eitt af aðalhlutverkum myndarinnar skrifar Ferrell handrit hennar en hann hefur verið viðstaddur Eurovision undanfarin ár til að kynna sér keppnina betur. Ferrell hefur lengi verið aðdáandi Eurovision en eiginkona hans er sænska leikkonan Viveca Paulin.

Á IMDB-síðu myndarinnar kemur fram að Jóhannes Haukur Jóhannesson mun leika mann að nafni Johans en nöfn annarra íslenskra leikara koma ekki fram þar. Samkvæmt heimildum Vísis hafa þó nokkrir verið ráðnir til að leika í myndinni, þeirra á meðal eru Björn Hlynur Haraldsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Hannes Óli Ágústsson.

Myndin verður að mestu tekin upp í Pinewood-myndverinu í Lundúnum en eins og áður segir verða einhver atriði tekin upp hér á landi í haust.

Will Ferrell og Rachel McAdams hafa áður leikið í sömu mynd en þó ekki á móti hvort öðru. Það var myndin Wedding Crashers sem kom út árið 2005. Leikstjóri þeirrar myndar var David Dobkin sem mun einmitt leikstýra Eurovision-myndinni.

Er þessi mynd framleidd fyrir streymisveituna Netflix.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.