Íslandsmeistarar Vals mæta Búlgaríumeisturum Ludogorets Razgrad í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.
Bæði liðin féllu úr leik í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Valur tapaði fyrir Maribor, 5-0 samanlagt, á meðan Ludogorets laut í lægra haldi fyrir Ferencváros, 5-3 samanlagt.
Ludogorets hefur unnið búlgarska meistaratitilinn átta sinnum í röð, eða öll tímabilin sem liðið hefur leikið í efstu deild. Auk þess hefur Ludogorets tvisvar sinnum orðið búlgarskur bikarmeistari.
Ludogorets hefur einnig náð góðum árangri í Evrópukeppnum á undanförnum árum. Liðið hefur tvisvar sinnum komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og einu sinni alla leið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Ludogorets hefur leikið 76 Evrópuleiki en aldrei mætt íslensku liði.
Í bæði skiptin sem Ludogorets komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar drógust Ernirnir, eins og félagið er kallað, með ensku liði í riðli. Tímabilið 2014-15 lenti Ludogorets með Liverpool í riðli og gerði jafntefli í heimaleiknum, 2-2. Liverpool vann á Anfield, 1-2. Tímabilið 2016-17 lenti Ludogorets með Arsenal í riðli og tapaði báðum leikjunum, 6-0 úti og 2-3 heima.
Fyrri leikur Vals og Ludogorets fer fram á Hlíðarenda fimmtudaginn 25. júlí. Sá seinni fer fram í Razgrad viku seinna.
