Erlent

Neituðu að borga skatta því það stríddi gegn „vilja guðs“

Kjartan Kjartansson skrifar
Systkinin héldu því fram að lög guðs væru þau æðstu í landinu.
Systkinin héldu því fram að lög guðs væru þau æðstu í landinu. Vísir/Getty
Dómstóll á Tasmaníu í Ástralíu hefur dæmt kristna fjölskyldu til að greiða á annað hundrað milljónir króna í vangoldinn skatt. Fjölskyldan hefur ekki greitt tekjuskatt í sjö ár á þeim forsendum að það stríddi gegn „vilja guðs“.

Yfirvöld lögðu hald á býli Beerepoot-fjölskyldunnar og seldu það árið 2017 vegna þess að fjölskyldan hafði ekki greitt tekjuskatt frá því árið 2011. Skattskuldin nam þá jafnvirði rúmra áttatíu milljóna íslenskra króna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Beerepoot-systkinin vörðu sig sjálf fyrir hæstarétti Tasmaníu. Þar sagði Rembertus Cornelis Beerepoot að lög guðs væru þau æðstu í landinu. Það veikti samband fólks við guð að láta það greiða skatta og leiddi til hörmunga eins og þurrka og ófrjósemi.

Dómarinn í málinu var þó ekki sannfærður. Þó að hann teldi að fjölskyldan trúði málflutningi sínum innilega ætti hann sér enga stoð í Biblíunni.

„Að mínu vitu segir Biblían í reynd að borgaraleg mál og lögmál guðs séu tvö ólík svið,“ sagði dómarinn sem dæmdi systkinin til að greiða rúmar hundrað milljón íslenskra króna hvort í tekjuskatt, sekt, vexti og annan málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×