Enski boltinn

Allir leikir Liverpool í beinni fram að móti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna sigri í Meistaradeildinni.
Leikmenn Liverpool fagna sigri í Meistaradeildinni. Getty/Harriet Lander
Stuðningsmenn Liverpool fá að sjá nóg af leikjum liðsins á næstunni á sportstöðvum Stöðvar tvö en hér eftir verða allir leikir Liverpool á undirbúningstímabilinu sýndir í beinni útsendingu.

Evrópumeistararnir eru núna búnir að endurheimta stærsta hlutann af stjörnum sínum úr sumarfrí og ættu því að tefla fram mjög sterku liði í þessum leikjum.

Fyrsta beina útsendingin er í kvöld þegar Liverpool liðið mætir Borussia Dortmund á Notre Dame leikvanginum í Indiana í Bandaríkjunum. Þarna mætast einmitt liðin hans Jürgen Klopp. Útsendingin frá leiknum í kvöld hefst klukkan 23.50 á Stöð 2 Sport.

Liverpool mun spila tvo aðra leiki í Bandaríkjaferðinni sinni, þann fyrri á móti Sevilla á Fenway Park í Boston 21. júlí og þann seinni á móti Sporting Lissabon á Yankee Stadium í New York 25. júlí.

Liverpool spilar síðan tvo undirbúningsleiki í Evrópu, fyrst leik á móti ítalska félaginu Napoli í Edinborg 28. júlí og svo leik á móti franska félaginu Lyon í Genf 31. júlí.

Fyrsti leikur tímabilsins hjá Liverpool er leikur á móti Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn en hann fer fram á Wembley 4. ágúst. Sá leikur verður einnig í beinni á Stöð 2 Sport.

Liverpool spilar síðan fyrsta leikinn sinn í ensku úrvalsdeildinni á móti Norwich 9. ágúst og aðeins fimm dögum síðar spilar liðið við Chelsea um Ofurbikar UEFA en sá leikur fer fram í Istanbul í Tyrklandi og er auðvitað líka í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×