Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, hringdi í forráðamenn Real Madrid og bauð þeim að kaupa Christian Eriksen samkvæmt heimildum spænska blaðsins Marca.
Marca, sem er stærsta íþróttablað Spánar, segir Eriksen neita að skrifa undir framlengingu á samningi sínum við Tottenham. Hann verður samningslaus næsta sumar og Levy vill því ná að selja hann í sumar, frekar en að missa hann frítt eftir ár.
Fyrir ári síðan vildi Real kaupa Danann en þá var verðmiði Tottenham 150 milljónir evra og ekkert varð af kaupunum. Nú vill Levy ólmur að Real kaupi og bauð Eriksen á 70 milljónir evra.
Real Madrid ætlar sér hins vegar ekki að taka þessu boði Levy eins og staðan er í dag. Það gæti hins vegar breyst ef spænska stórveldið nær ekki að landa Paul Pogba eða Donny van de Beek.

