Ef fram heldur sem horfir mun Íran gerast brotlegt við ákvæði JCPOA-kjarnorkusamningsins innan fáeinna daga og eiga meira auðgað úran en samningurinn heimilar. Þetta hafði Reuters eftir erindrekum sem vitnuðu til gagna rannsakenda á vegum Sameinuðu þjóðanna.
„Þau eru ekki enn komin upp fyrir takmarkið. En það gerist líklega um helgina, ef það gerist,“ hafði Reuters eftir ónefndum heimildarmanni innan höfuðstöðva Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í Vín.
Kína, Frakkland, Þýskaland, ESB, Íran, Rússland, Bretland og Bandaríkin gerðu samninginn árið 2015 en hann gekk í meginatriðum út á að aflétta viðskiptaþvingunum gegn Íran og að á móti myndi ríkið frysta kjarnorkuáætlun sína. Bandaríkin drógu sig út úr samningnum í maí á síðasta ári og ári síðar sagðist Íransstjórn ætla að hætta að framfylgja plagginu nema hin ríkin vernduðu íranskt hagkerfi gegn nýjum bandarískum þvingunum.
Bandaríkin og Íran eiga nú í erfiðum deilum og er ekkert útlit fyrir að Bandaríkjamenn taki aftur upp samninginn. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagðist í gær vilja sannfæra Donald Trump Bandaríkjaforseta um að það væri fyrir bestu að hefja viðræðuferlið á ný, aflétta ákveðnum þvingunum og þannig gefa viðræðum séns. Forsetarnir munu funda saman á G20-fundinum sem hefst í Japan í dag.
