Juventus hefur komist að samkomulagi við Adrien Rabiot um að hann muni spila með liðinu á næstu leiktíð. Sky á Ítalíu greindi frá þessu í dag.
Rabiot hefur spilað með Paris Saint-Germain síðustu ár en hann verður samningslaus á morgun, 30. júní. Viðræður við PSG um framlengingu báru ekki árangur og því fer hann frjálst í sumar.
Miðjumaðurinn hefur ekki spilað fyrir PSG síðan í desember þegar hann neitaði að skrifa undir nýjan samning. Þá var honum hent á bekkinn og þar sat hann út tímabilið.
Rabiot er annar leikmaðurinn sem Juventus fær frítt til sín í sumar, en Aaron Ramsey kemur frítt frá Arsenal 1. júlí.
