Erlent

Konur í meirihluta í nýrri ríkisstjórn Finnlands

Atli Ísleifsson skrifar
Ellefu af nítján ráðherrum í nýrri ríkisstjórn Finnlands eru konur.
Ellefu af nítján ráðherrum í nýrri ríkisstjórn Finnlands eru konur. Getty
Ellefu af nítján ráðherrum í nýrri ríkisstjórn Finnlands eru konur. Ráðherrar í nýrri ríkisstjórn Antti Rinne, leiðtoga Jafnaðarmanna, voru kynntir til sögunnar í gær, en stjórnvarmyndunarviðræður höfðu þá staðið í fjölda vikna.

Rinne tekur við embætti forsætisráðherra af Juha Sipilä, leiðtoga Miðflokksins. Alls eiga fimm flokkar aðild að nýrri ríkisstjórn – Jafnaðarmannaflokkurinn, Miðflokkurinn, Græningjar, Vinstra sambandið og Sænski þjóðarflokkurinn – en enginn flokkur hlaut meira en 18 prósent fylgi í kosningunum.

Hlutfall kvenna á finnska þinginu hefur aldrei verið hærra en nú, en alls eru 92 af þeim 200 þingmönnum sem tryggðu sér sæti í kosningunum í apríl, konur.

Mika Lintilä frá Miðflokknum er nýr fjármálaráðherra landsins, Pekka Haavisto, formaður Græningja, nýr utanríkisráðherra. Matti Vanhanen, fyrrverandi forsætisráðherra og fulltrúi Miðflokksins, verður forseti þingsins.

Ríkisstjórn Rinne hyggst verja auknu fjármagni í innviði, mennta- og velferðarmál og þá stendur til að styrkja stöðu sænskrar tungu í Finnlandi með því að gera sænsku að skyldufagi á ný í framhaldsskólanámi.

Jafnaðarmannaflokkurinn varð stærstur í kosningunum, hlaut 17,7 prósent fylgi. Sannir Finnar hlutu 17,5 prósent fylgi, Þjóðarbandalagið 17 prósent. Miðflokkurinn 13,8 prósent, Græningjar, 11,5 prósent, Vinstra sambandið 8,2 prósent, Sænski þjóðarflokkurinn 4,5 prósent, Kristilegir demókratar 3,9 prósent.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×