Lífið

Lífið gjörbreyttist eftir að Íris missti sjötíu kíló

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íris gekkst undir undir aðgerð og missti í kjölfarið sjötíu kíló.
Íris gekkst undir undir aðgerð og missti í kjölfarið sjötíu kíló.
Íris Valgeirsdóttir var orðin rúmlega 140 kíló þegar hún uppgötvaði að lífernið sem hún lifði væri hægt og bítandi að draga hana í gröfina. Hún vildi breyta um stefnu og öðlast bætt lífsgæði með betri heilsu. Árangurinn er ótrúlegur en á einungis einu og hálfu ári hefur Íris misst rúmlega 70 kíló og segir líf sitt vera gjörbreytt. Hún hafi alla tíð upplifað fordóma gagnvart þyngdinni en í hart nær þrjátíu ár reyndi Íris að bæta heilsuna og loksins tókst það.

„Ég varð ólétt mjög snemma þegar ég var sautján ára og bjó þá á Laugum þar sem ég var í framhaldsskóla og þyngdist strax þá og hef verið að eiga við þyngdina síðan ég var sautján ára,“ segir Íris í Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið á Stöð 2.

Fljótlega upp frá því hafi hún misst tökin á þyngdinni og heilsunni um leið.

„Ég var búin að reyna bókstaflega allt undir sólinni til að létta mig. Ég hef reyndar ekki farið á hvítvínskúrinn. Ég er búinn að reyna allt og þetta er bara ekki leti eða eitthvað svoleiðis, ég bara náði þessu ekki.“

Segja má að vendipunkturinn í lífi Írisar hafi orðið þegar hún upplifði atvik sem vakti hana til umhugsunar um lífið og eigin heilsu.

„Ég var heima hjá mömmu og fékk alveg rosalega verki inni í mér og fannst eins og ég væri að fá hjartaáfall. Þá var ég „bara“ með magabólgur og bakflæði, sem betur fer. Þetta var svolítil vakning fyrir mig. Ég var þarna yfir 140 kíló og taldi mér í trú um það að ég væri ekkert veik og þetta skipti engu máli. Ég veit það núna þegar ég er orðin svona að það var ekki rétt.“

Íris með fjölskyldunni þegar hún var sem þyngst.
Vanlíðanin sem fylgdi heilsuleysinu var að stórum hluta líkamleg en ekki síður andleg.

„Maður er rosalega þunglyndur og þetta er bara ekki gaman. Ég er reyndar þannig týpa að ég er alltaf glöð og ég fel mig svolítið á bakvið það. Fólk sé ekkert endilega á mér hvernig mér leið.“

Þegar Íris átti ekki roð í áttræðan tengdaföður sinn þegar verið var að stika gönguleiðir á hálendi Íslands rann það endanlega upp fyrir henni að svona gæti þetta ekki gengið. Íris segir aukna hreyfingu hafa haft sitt að segja en hún naut aðstoðar þjálfara hjá Hraust sem útbjuggu sérsniðið æfingakerfi sem hefur reynst henni afar vel.

„Ég fór í svokallaða mini magahjáveitu. Það var mitt lukkuskref í lífinu,“ segir Íris sem fór eftir það að hreyfa sig mikið og kílóin fuku af henni. Nú styttist í að tvö ár verði liðin frá aðgerðinni sem Íris gekkst undir en rannsóknir hafa sýnt að lífsstíll margra færist þá gjarnan til fyrra horfs.

„Aðgerðin hjálpar í tvö ár og svo tekur hausinn við. Þá er það bara viljastyrkurinn og ég er ekki hrædd. Ég veit alveg að ég ætla ekki að verða aftur eins og ég var.“

Nánar er hægt að fræðast um lífsstílsbreytingu Írisar og ferlið í heild á heimasíðunni irisv.blog.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×