„Eigum við ekki að segja að við höfum fengið eitt stig, við hættum ekki, við höldum áfram. Við vorum eftir á í öllu allan leikinn og HK-menn voru hrikalega öflugur, komu vel gíraðir og ótrúlegt að ná stiginu hérna. Við áttum einfaldlega ekki roð í þá,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir jafnteflið við HK, 2-2, í Kórnum í dag.
Ágúst var sáttur með stigið en honum fannst hans menn þó ekki eiga það skilið en á endanum skiluðu háu boltar Blika tveimur mörkum.
„Miðað við 85 mínútur af leiknum áttum við ekkert skilið. Við dældum háum boltum inn í teiginn og þeir voru búnir að taka við því í 85 mínútur eins og ekkert væri. Sem betur fer fyrir okkur skorum við tvö flott mörk sem voru „direct“ sem er frekar óvanalegt fyrir Blika en það lukkaðist í dag,“ sagði Gústi enn fremur.
Varðandi ástæður þess af hverju Blikar voru jafn lengi að koma sér inn í leikinn og raun bar vitni þá stóð ekki á svörum hjá Ágústi.
„Andstæðingurinn! Þeir komu gíraðir í þetta og við áttum lítinn séns í þá. Þetta var erfitt en eitt stig. Eins og ég segi, við áttum erfiðan dag því andstæðingurinn var góður,“ sagði hann að lokum.
Ágúst: Áttum ekki roð í þá

Tengdar fréttir

Leik lokið: HK - Breiðablik 2-2 | Blikar björguðu stigi
HK var 2-0 yfir gegn Breiðabliki þegar mínúta var til leiksloka. Blikar náðu hins vegar að bjarga stigi.