Birkir Már Sævarsson og Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmenn í fótbolta, voru langt frá sínu besta í leiknum og fengu að heyra það frá sérfræðingum Pepsi Max-markanna á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.
„Við vorum ekki hrifnir af varnarvinnu Birkis í nokkur skipti. Mér fannst varnarleikur hans ekki til útflutnings og ég held að hann viti það best sjálfur að hann var ekki upp á sitt besta í gær,“ sagði Atli Viðar Björnsson og Logi Ólafsson tók undir orð framherjans fyrrverandi:
„Hann er plataður eins og hann væri ekki á staðnum þegar að KA fær vítaspyrnuna,“ sagði Logi.
Hannes Þór var sömuleiðis hikandi í markinu og óöruggur og mögulega heppinn að fá ekki á sig vítaspyrnu. Hann hefur lítið spilað undanfarna mánuði sem gæti verið skýringin á slakri frammistöðu hans.
„Hann virkaði pínulítið ryðgaður eða hikandi í sumum aðgerðum. Einfalda svarið er að hann er ekki í leikæfingu. Við skulum gefa honum nokkrar vikur og nokkra leiki,“ sagði Atli Viðar Björnsson.
Alla umræðuna um landsliðsmennina má sjá hér að neðan.