Fótbolti

Pochettino: Taktíkin var vitlaus

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pochettino á hliðarlínunni í gær
Pochettino á hliðarlínunni í gær vísir/getty
Mauricio Pochettino segist hafa stillt taktíkinni vitlaust upp gegn Ajax í undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í gærkvöld.

Ajax byrjaði leikinn miklu betur og var með yfirhöndina fyrsta hálftímann þegar Tottenham spilaði 3-5-2. Á þeim kafla skoraði Donny van de Beek eina mark leiksins.

„Þegar ég horfi á leikinn aftur get ég séð að við spiluðum vitlausa taktík,“ sagði Pochettino eftir leikinn.

„En það voru ekki of margir valmöguleikar, það er ekki hægt að giska á það hvað hefði gerst ef við hefðum spilað öðruvísi.“

„Það var ekki taktíkin sem lét okkur fá á okkur mark. Hvernig við nálguðumst leikinn var ekki gott. Ég er stjórinn og ég tek ábyrgð á því.“

Eftir að Jan Vertonghen fór út af vegna meiðsla í fyrri hálfleik skipti Tottenham í 4-4-2 og Moussa Sissoko kom inn. Lið Tottenham leit strax betur út og var mun betra í lok fyrri hálfleiks og seinni hálfleik.

„Eftir að við fengum markið á okkur þá komust við inn í leikinn. Moussa Sissoko kom með góða orku og við spiluðum mun betur.“

Liðin mætast öðru sinni í Amsterdam þar sem Tottenham þarf að vinna til þess að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fyrsta skipti. Pochettino mun næsta víst ekki stilla aftur upp í 3-5-2 fyrir þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×