Rúmlega þúsund manns sluppu út úr flóttamannamiðstöð í suðurhluta Mexíkós í gærkvöldi. Flóttinn er sagður til marks um þann vanda sem þarlend stjórnvöld standa frammi fyrir, sökum síaukins straums farandfólks frá Suður-Ameríku.
Fullyrt að rúmlega helmingur þeirra 1300 sem sluppu úr Siglo XXI-búðunum í borginni Tapacula hafi að endingu skilað sér aftur til baka. Mexíkósk stjórnvöld segjast þó ekki vita hvar um 600 einstaklingar séu niðurkomnir.
Í yfirlýsingu stjórnvalda í gær segir að kúbverskir farandverkamenn standi líklega á bakvið flóttann. Þeir eru langfjölmennasti hópurinn sem dvalið hefur í búðunum en að sögn mexíkóskra miðla voru jafnframt margir Haítar og miðamerískir farandverkamenn í strokuhópnum.
Áætlað er að mexíkóskir landamæraverðir hafi sent um 15 þúsund manns aftur til síns heima á síðastliðnum mánuði, sem rakið er til þrýstings frá forseta Bandaríkjanna. Donald Trump hefur krafist þess að Mexíkó reyni að stemma stigu við straumi fólks norður, en endanlegur áfangastaður flestra eru Bandaríkin. Trump hótaði á miðvikudag að loka landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna verði fjölmenn flóttamannalest, sem hefur sett stefnuna norður, ekki stöðvuð.
Þrátt fyrir að Kúbverjar séu taldir standa á bakvið flóttann í Tapachula eru flestir þeirra sem ferðast norður í gegnum Mexíkó frá Gvatemala, Hondúras og El Salvador.

