Frans páfi kaþólsku kirkjunnar þakkaði frönskum slökkviliðsmönnum sem lögðu líf sitt að veði til að bjarga því sem bjargað varð af Maríukirkjunni í París á mánudag. Hann vill að dómkirkjan verði endurbyggð sem fyrst. Forseti Frakklands hefur heitið því að endurreisa hana á fimm árum.
Kirkjuspíra Maríukirkjunnar sögufrægu hrundi og timburþak hennar er gerónýtt eftir eldsvoðann sem braust út síðdegis á mánudag. Tveir turnar kirkjunnar standa þó enn og fjölda listmuna var bjargað. Um fjögur hundruð slökkviliðsmenn börðust við eldinn fram á aðfaranótt þriðjudags.
„Þakklæti gjörvallrar kirkjunnar fer til þeirra sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga basilíkunni og hættu jafnvel lífi sínu til þess,“ sagði páfi við tugi þúsunda kaþólikka á Péturstorgi í dag.
Páfagarður hefur lofað því að veita sérfræðiráðgjöf við endurbyggingu Maríukirkjunnar, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í sjónvarpsávarpi í gær að hann teldi mögulegt að endurbyggja kirkjuna á fimm árum.
Páfi lofar slökkviliðsmenn sem björguðu Maríukirkjunni

Tengdar fréttir

Kalla eftir tillögum að nýrri spíru frá arkitektum heimsbyggðarinnar
Frönsk yfirvöld munu bjóða arkitektum víða um heim að senda inn tillögur að hönnun á nýrri spíru fyrir Notre Dame dómkirkjuna. Eldri spíran varð eldinum sem geysaði í kirkjunni á mánudaginn að bráð.

Drónamyndir varpa ljósi á gríðarlegar skemmdir
Feiknastór göt eru á Notre Dame-dómkirkjunni, einkum þar sem þak hennar og spíra féllu saman.

Stórt og flókið verkefni bíður Frakka
Miklu fé hefur verið heitið til enduruppbyggingar Notre Dame eftir brunann á mánudag. Sérfræðingar frá Páfagarði og arkitektar sem endurreistu Windsor-kastala bjóða aðstoð sína. Þrívíddarskannanir til af kirkjunni.

Hafa yfirheyrt þrjátíu manns vegna eldsvoðans í Notre Dame
Þrjátíu verkamenn hjá fimm byggingafyrirtækjum, sem höfðu umsjón með viðgerðum á Notre Dame kirkjunni í París þegar eldur kviknaði, hafa verið yfirheyrðir vegna málsins.