Hilmar Árni framlengir við Stjörnuna!
Markahæsti leikmaður Stjörnunnar undanfarin ár og einn besti leikmaður Pepsi deildarinnar, Hilmar Árni Halldórsson hefur skrifað undir nýjan 3 ára samning við Stjörnuna og leikur því með okkur út tímabilið 2021 hið minnsta. #InnMedBoltannpic.twitter.com/96DeNTGUaH
— Stjarnan FC (@FCStjarnan) April 19, 2019
Hilmar Árni kom til Stjörnunnar frá Leikni R. fyrir tímabilið 2016. Hann hefur skorað 33 mörk í 64 deildarleikjum með Stjörnunni. Á síðasta tímabili skoraði hann 16 mörk í Pepsi-deildinni og fékk Silfurskóinn.
Hilmar Árni varð bikarmeistari með Stjörnunni í fyrra. Hann lék alla fimm leiki Stjörnunnar í Mjólkurbikarnum.
Stjarnan vann Meistarakeppni KSÍ í gær eftir sigur á Val í vítaspyrnukeppni, 6-5. Hilmar Árni skoraði úr sinni spyrnu í vítakeppninni.
Hilmar Árni, sem er 27 ára, hefur leikið fjóra A-landsleiki.
Stjarnan fær KR í heimsókn í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar laugardaginn 27. apríl.