Hún tryggði sér farseðilinn á heimsleikana í ár með því að valta yfir mót í Suður-Afríku en Auðunn Blöndal fylgdi henni eftir þar í þættinum Atvinnumennirnir okkar.
Hann ræddi meðal annars við þjálfara Katrínar, Bandaríkjamanninn Ben Bergeron, sem er búinn að hafa mikil áhrif á feril Katrínar en hann lýsir henni á skemmtilegan máta.
„Hún er eins og sleðahundur. Hún elskar að vera í vinnunni. Þegar að sleðahundur er ekki að vinna líður honum illa en þegar að hann er að störfum gæti hann ekki verið ánægðari. Katrín er nákvæmlega þannig,“ segir Ben Bergeron.
Cole Sager, æfingafélagi Katrínar, fer einnig fögrum orðum um hana og viðurkennir að sjálfur er hann aðdáandi íslensku CrossFit-drottningarinnar.

Katrín Tanja stefndi ekki beint á toppinn í CrossFit á sínum tíma en hún ætlaði sér menntabrautina í hálaunastarf.
„Ég ætlaði alltaf að verða lögfræðingur og sendiherra eins og afi. Ég var með níu komma eitthvað í meðaleinkunn og gekk vel í skóla,“ segir Katrín Tanja en Annie Mist kveikti áhuga hennar á íþróttinni.
„Ég hef alltaf verið með þetta ótrúlega mikla keppnisskap og ég var að leita að einhverju eftir að ég hætti í fimleikum 16 ára. Síðan sá ég þessa myndbandsseríu um Annie Mist þegar að hún vinnur heimsleikana og hún var í fréttunum út um allt. Mamma og amma spurðu hvort ég vildi ekki prófa þetta og þá var ekki aftur snúið,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Brot úr Atvinnumönnunum okkar má sjá hér að neðan.