Í gær voru tvö ár, níu mánuðir og fimm dagar síðan að Real vann Atlético Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2016 í Mílanó og nú loks tóks einhverju liði að fella Real úr keppni. Real Madrid var búið að drottna yfir Evrópu í 1.001 dag.
Santiago Solari, þjálfari Real Madrid, hefur ekki átt sjö dagana sæla í draumastarfinu en hann ber nú ábyrgð á tveimur stærstu töpum liðsins í Meistaradeildinni. Fyrst tapaði hann 3-0 fyrir CSKA Moskvu í riðlakeppninni og nú 4-1 fyrir Ajax.
Solari hefur aðeins stýrt Real í 113 daga og þess utan tapaði hann tvívegis í sömu vikunni fyrir Barcelona en hann er með Real-liðið tólf stigum á eftir Börsungum í spænsku deildinni.

Real hefur auðvitað saknað Cristiano Ronaldo en áhrif hans eru meiri en sumir halda. Frá fyrsta leik Meistaradeildarinnar 2015 er Ronaldo búinn að skora 43 mörk en næsti Madrídingur er Karim Benzema með 17 mörk. Hann er markahæstur í Real-liðinu núna með fjögur mörk.
Spænsku blöðin fóru á fullt í gærkvöldi og kölluðu eftir höfði Santiago Solari en þau vilja einnig losna við forsetann Florentino Perez og leikmenn á borð við Gareth Bale.
Ljóst er að fróðlegt verður að fylgjast með hvernig Real Madrid svarar fyrir sig á næstu dögum og í sumar þegar að leikmannaglugginn opnar en svona árangur er ekki í boði á Santiago Bernabéu.