Fótbolti

Rostov í undanúrslit | Íslensku fótboltamennirnir fengu fáar mínútur í Evrópu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ragnar spilaði í dag og hans menn héldu hreinu.
Ragnar spilaði í dag og hans menn héldu hreinu. vísir/getty
Það var einungis Ögmundur Kristinsson sem fékk 90 mínútur af þeim íslensku knattspyrnumönnum sem voru í eldlínunni í dag.

Ögmundur spilaði allan leikinn í marki Larissa sem tapaði 2-1 gegn Lamia á útivelli í grísku úrvalsdeildinni. Larissa er í tólfta sæti deildarinnar.

Í sömu deild sat Sverrir Ingi Ingason á bekknum hjá toppliði PAOK sem gerði 1-1 jafntefli við á Aris á heimavelli. PAOK er eins og áður segir á toppi deildarinnar, tíu stigum á undan Olympiacos.

Það var Íslendingaslagur í rússneska bikarnum í dag er Rostov komst í undanúrslit með 1-0 sigri á Krasnodar. Ragnar Sigurðsson var í byrjunarliði Rostov en Björn Bergmann Sigurðarson og Viðar Örn Kjartansson voru á bekknum. Sömu sögu má segja af Jóni Guðna Fjólusyni hjá Krasnodar.

Bæði Albert Guðmundsson og Kristófer Ingi Kristinsson voru ónotaðir varamenn er Willem II vann 2-1 sigur á AZ Alkmaar. Kristófer og félagar í Willem eru í tíunda sætinu en Albert og AZ eru í því fjórða.

Hjörtur Hermannsson horfði á leikinn frá varamannabekknum er Bröndby vann 1-0 sigur á Randers en Bröndby lét þjálfara sinn, Alexander Zorninger, fara á dögunum. Bröndby er í þriðja sæti dönsku deildarinnar.

Böðvar Böðvarsson var á varamannabekknum er Jagiellonia tapaði 1-0 fyrir Cracovia í pólsku úrvalsdeildinni en Jagiellonia, silfurliðið frá því í fyrra, er nú í þriðja sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×