Þeir Aron Kristinn Jónasson og Brynjar Barkarson mynda saman sveitina ClubDub en hún sló rækilega í gegn síðasta sumar og hafa þeir félagar gefið út nokkra smelli síðustu mánuði. Á dögunum kom út heimildarmynd um þá tvo en lífið hefur sannarlega breyst síðastliðið ár.
Aron og Brynjar slógu í raun fyrst í gegn fyrir nokkrum árum þegar þeir framleiddu myndbönd fyrir 12:00 í Verslunarskóla Íslands. Myndböndin vöktu gríðarlega mikla athygli en að lokum voru þeir reknir úr skólanum. Til að byrja með í nokkra daga en seinna meir voru vinirnir einfaldlega reknir og máttu ekki snúa til baka.
„Í október eða nóvember 2014 var ég rekinn úr Versló því ég var að drekka í nemendakjallaranum,“ segir Aron Kristinn Jónasson en þá var hann á leiðinni í nemendaferð til Flórens á Ítalíu og tók vinahópurinn hummerlimmu upp á flugvöll. Þarna voru þeir reknir tímabundið úr skólanum. Vísir greindi frá málinu á sínum tíma.
„En í desember á sama ári vorum við bara reknir úr skólanum,“ segir Aron en þá voru þeir reknir fyrir að hakka sig inn í skólakerfið og breyta einkunnum.
„Þess vegna fór ég í hugbúnaðarverkfræðinginn,“ segir Brynjar Barkason sem er í dag í námi við Háskóla Íslands. Báðir náðu þeir að klára menntaskóla, Brynjar útskrifaðist úr MK og Aron úr FG.
„Maður hélt smá að lífið væri bara búið,“ segir Aron eftir að þeir voru reknir úr skóla.
„Fyrir mitt leyti þá var þetta mikill vendipunktur í mínum lífi. Annað hvort þurfti maður að rífa sig í gang eða sökkva enn dýpra. Ef við hefðum ekki fengið þetta spark í rassinn, þá hefðum við verið enn þá klikkaðri en við erum. Þegar maður er í Versló og er í 12:00 þá heldur maður að maður sé almáttugur,“ segir Aron.
Í þættinum ræða þeir einnig um tónlistina, frægðina, lýtaaðgerðir, samstarfið og vináttuna og framtíðina en þeir koma meðal annars fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í sumar.
Hér að ofan má sjá fjórða þáttinn af Einkalífinu en þátturinn vikulegi er í loftinu á fimmtudögum á Vísi og Stöð 2 Maraþon.