Limmósínuskortur er í Atlanta og segja bílaleigur Georgíufylki bera sökina á því að ekki sé nóg af limmósínum í borginni til þess að ferja eigendur NFL liða, viðskiptajöfra og aðrar stórstjörnur sem eru mættar til þess að horfa á stórleikinn um ofurskálina.
Leikurinn um ofurskálina, úrslitaleikur NFL deildarinnar, er einn stærsti íþróttaviðburður heims og fer hann fram í Atlanta í ár.
Samkvæmt lögum Georgíufylkis mega limmósínur sem ekki eru tryggðar og skráðar í Georgíu ekki keyra um í fylkinu. Bílaleigur og leigubílafyrirtæki sem sjá um akstur á slíkum bifreiðum vilja fá undanþágu á þessari reglu en hafa ekki fengið.
Málið þykir hið vandræðalegasta og er framkvæmdarstjóri nefndarinnar sem sér um undirbúning leiksins Amy Patterson hrædd um að þetta verði „svartur blettur á fylkinu.“
Ljóst er að leikurinn dregur margar stórstjörnur til borgarinnar, stjörnur sem eru vanar öllu hinu besta og þar á meðal að fá að sitja í limmósínum þegar þær ferðast á milli staða.
Í leiknum mætast lið Los Angeles Rams og New England Patriots en hann fer fram í kvöld. Stöð 2 Sport verður með leikinn í beinni útsendingu og hefst upphitun klukkan 22:00.
