Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyjabæjar á þriðjudag kemur fram að röskun hafi verið á sorphirðu í desember í bænum en áætlanir gera ráð fyrir að regla verði komin á sorphirðu í næstu viku.
Þá kom fram að ráðið lýsir yfir miklum vonbrigðum með að tafir hafi orðið á vinnu við tillögu að matsáætlun vegna umhverfismats sorpbrennslu.
Áætlað er að leggja tillöguna fram nú í janúar. Þegar tillagan hefur verið afgreidd þarf að vinna frummatsskýrslu sem fer til auglýsingar.
Í niðurstöðu ráðsins segir að vinna við mat á umhverfisáhrifum sorpbrennslu sé mjög tímafrek og muni tefja þær áætlanir sem Vestmannaeyjabær hafði um byggingu sorporkustöðvar.
