Ísland tapaði með níu mörkum fyrir heimsmeisturum Frakka í milliriðli á HM í Þýskalandi og Danmörku.
Lykil sóknarmenn Íslands, Aron Pálmarsson og Arnór Þór Gunnarsson, voru ekki með í dag vegna meiðsla og það sást. Íslenska liðið skoraði ekki mark fyrr en eftir 12 mínútur og 22 sekúndur.
Á þeim tíma komst Frakkland hins vegar aðeins í 6-0 þar sem Ágúst Elí Björgvinsson kom sterkur inn í íslenska markið og varði vel í fyrri hálfleik.
Eftir að Elvar Örn Jónsson skoraði fyrsta mark Íslands fóru hlutirnir að gerast og náði íslenska liðið að laga stöðuna, það munaði fjórum mörkum í hálfleik 11-15. Kaflinn frá því íslenska liðið byrjaði að skora og til loka fyrri hálfleiks fór hins vegar 11-9 fyrir Íslandi svo frammistaðan á þeim kafla var mjög góð.
Íslensku strákarnir byrjuðu seinni hálfleikinn vel og minnkuðu muninn í tvö mörk, 14-16. Þá fór hins vegar að halla undan fæti. Á að því virtist augnabliki var Frakkland búið að setja fjögur mörk í röð. Guðmundur Guðmundsson tók leikhlé en það hafði ekki sín áhrif og Frakkar skoruðu næstu tvö mörk, staðan orðin 14-22.
Þá var orðið ljóst að Frakkar færu með sigurinn, það er nær ómögulegt að vinna upp sjö marka mun gegn heimsmeisturunum á rúmu korteri.
Strákarnir fóru þó að skora mörk að nýju, en þeir náðu aldrei neinu áhlaupi að ráði. Þegar yfir lauk var staðan 22-31 og öruggur sigur Frakka í hús.
Nánari umfjöllun, viðtöl við landsliðsmenn, einkunnir og fleira kemur á Vísi seinna í kvöld.
