Samkvæmt könnun sem Samgöngustofa hefur gert um áraraðir á öryggi barna í bíl eru öll börn yngri en eins árs í réttum búnaði. Talan fer síðan lækkandi með aldrinum og eru aðeins 80 prósent sex ára barna í réttum búnaði og mörg hver bara sett í belti í bílnum. Það virðist því vera að kröfur foreldra fari minnkandi með aldri barnanna.
„Aldurshópurinn svona sex til níu ára er stundum á milli vita. Það er miðað við ákveðinn öryggisbúnað, mjög skilgreindan fyrir yngstu börnin, svo mögulega hætta foreldra að nota þennan öryggisbúnað of snemma. Í sumum tilfellum allavega. En ég vil árétta að langflestir foreldrar eru með þetta í mjög góðu lagi. Sem er afar jákvætt,“ segir Þórhildur.
Hafa skal í huga að barn lægra en 135 sentimetrar á hæð skal ávallt vera í viðeigandi öryggis- og verndarbúnaði. Könnunin er framkvæmd um land allt og sýna niðurstöður einnig að munur er á milli sveitarfélaga. Fólk telur styttri vegalengdir öruggari.
Sláandi niðurstöður
Fyrr í mánuðinum fór lögreglan á Suðurnesjum í átak og stöðvaði fjölda ökumanna á leið með börn sín í leikskólann. Þar voru niðurstöður sláandi og of margir ekki með börn sín í tilteknum öryggisbúnaði. En í könnun Samgöngustofu kom Garður á Suðurnesjum verst út. Tæplega 80 prósent þeirra sem voru kannaðir þar voru með þetta í lagi.„Við hjá Samgöngustofu viljum leggja áherslu á það að engin bílferð er of stutt til að spenna sig og börnin sín í belti. Börnin eiga að sjálfsögðu ekki að bera ábyrgð á því sjálf að spenna sig niður í réttan búnað eða með réttum hætti,“ áréttar hún.