Háskóli Íslands varði 26,7 milljónum króna á fyrstu tíu mánuðum ársins í risnu. Þetta kemur fram í svari skólans við fyrirspurn Fréttablaðsins. Á vefnum opnirreikningar.is sést að Háskóli Íslands er sú stofnun ríkisins sem eyðir mestu fé í risnu.
Ef aðeins er horft á tímabilið frá apríl (þegar stofnanir fóru að birta reikninga á vefsíðunni) til október notaði Háskóli Íslands 22 milljónir króna í risnu. Utanríkisráðuneytið eyddi 10 milljónum króna og forsætisráðuneytið 4,5 milljónum.
Risna er kostnaður sem stofnun eða embætti efnir til í þeim tilgangi að sýna þeim sem risnunnar nýtur gestrisni, þakklæti eða viðurkenningu. Í reglum skólans segir að til risnu teljist nauðsynlegur kostnaður í sambandi við veitingar við sérstök tilefni. Þar á meðal vegna kostnaðar við móttöku á andmælendum, erlendum gestum, fyrirlesurum, innlendum gestum og starfsmönnum háskólans.
Í svari Háskóla Íslands við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að tilefni risnu geti verið misjöfn, allt frá ráðstefnum, málþingum og hátíðlegum viðburðum yfir í móttöku erlendra gesta og doktorsvarnir.
„Í júní eru brautskráningar úr öllum deildum skólans auk þess sem sumarmánuðirnir eru vinsælir til ráðstefnuhalds. Þá eru sumarnámskeið fyrir erlenda nemendur í sumum deildum skólans. Rétt er að geta þess að ráðstefnur og sumarnámskeið eru oftast greidd eða styrkt af þriðja aðila þó að kostnaðurinn fari í gegnum bókhald háskólans.“
Háskóli Íslands varði stofnana mest í risnu
Baldur Guðmundsson skrifar
