Nokkrir breskir fjölmiðlar hafa í dag birt nöfn og myndir af konunum tveimur sem létust í umferðarslysinu við Núpsvötn í gær.
Á vef breska blaðsins The Telegraph segir að konurnar hafi heitið Rajshree Laturia og Khushboo Laturia. Þær voru giftar bræðrunum Sheeraj og Supreme en þeir slösuðust alvarlega í slysinu í gær.
Þá slösuðust einnig tvö börn, sjö og níu ára, en eitt barn lést, ellefu mánaða gömul stúlka. Fjölmiðlar ytra hafa ekki birt nöfn barnanna.
Í frétt Telegraph segir að hjónin Sheeraj og Rajshree hafi verið á lista sem kallaður er Asian Power Couples Hot 100 árið 2015.
Á meðal annarra breskra miðla sem birt hafa nöfn kvennanna eru Daily Mail, The Sun, Evening Standard, Metro og The Daily Star.
