Fótbolti

Söguleg boltameðferð Tottenham á Nývangi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harry Kane lagði upp mark Tottenham í gær.
Harry Kane lagði upp mark Tottenham í gær. vísir/getty
Tottenham komst áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í gærkvöldi þegar að liðið gerði 1-1 jafntefli við Barcelona á Nývangi en Lucas Moura skoraði markið sem skipti öllu máli í seinni hálfleik eftir undirbúning Harry Kane.

Spurs þurfti að jafna úrslit Inter á móti PSV en ítalska liðið fór illa að ráði sínu á heimavelli á móti hollensku meisturunum og gerðu sömuleiðis 1-1 jafntefli þrátt fyrir að sækja nánast látlaust allan seinni hálfleikinn.

Frammistaða Tottenham í Katalóníu var glæsileg en liðið fékk urmul færa, spilaði vel og hélt boltanum 51 prósent af leiktímanum á móti 49 prósentum Börsunga. Þetta gerist ekki oft. Alls ekki oft.

Þetta var í fyrsta sinn í tólf ár sem lið heldur boltanum meira en Barcelona í leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en síðast var Barcelona undir í þeirri baráttu á móti Werder Bremen í desember 2006. Brimarborgarar voru þá 56 prósent með boltann en töpuðu samt, 2-0. Gracenote heldur utan um þessa tölfræði.

Þökk sé marki Lucas Moura er Tottenham nú búið að skora í 16 Meistaradeildarleikjum í röð sem er jöfnun á félagsmeti en bara Paris Saint-Germain hefur skorað í fleiri leikjum í röð af öllum liðum Meistaradeildarinnar, alls 22 leikjum í röð.

Barcelona vann B-riðilinn og hvíldi suma af sínum bestu mönnum í gær en liðið er nú búið að spila 29 heimaleiki í röð í Meistaradeildinni án þess að tapa sem er jöfnun á meti Bayern München sem gerði það sama á árunum 1998-2002.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×