Enski boltinn

„Létu okkur líta út eins og slátrara inn á vellinum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ræðir við dómarann eftir leik.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ræðir við dómarann eftir leik. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var allt annað en ánægður með leikaraskap og leiktafir leikmanna Paris Saint-Germain í tapleik Liverpool í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

PSG komst í 2-0 í fyrri hálfleik og hélt út í þeim seinni þar sem liggur við meiri tími fór að huga að meiddum mönnum Parísarliðsins en fór í sjálfan fótboltann inn á vellinum.

Klopp var mjög pirraður út í taktík franska liðsins í viðtali eftir leikinn. BBC segir frá.

Klopp hneyklaðist meðal annars á því að Joe Gomez hafi fengið að líta gula spjaldið í þessum leik. „Hann er greinilega ekki lengur vinalegasti strákurinn á jörðinni,“ sagði Klopp.

Liverpool náði ekki inn jöfnunarmarkinu þrátt fyrir pressu í seinni hálfleiknum. Leikmenn PSG notuðu líka hvert tækifæri til að liggja í grasinu og tefja leikinn.





„Ég veit að fyrirsagnirnar munu snúast um annað en allar þessar truflanir voru ekki til fyrirmyndar,“ sagði Klopp.

„Við höfum unnið háttvísiverðlaunin tvisvar í Englandi en í kvöld létu þeir okkur líta út eins og slátrara með öllum þessum gulum spjöldum,“ sagði Klopp.

„Þetta var klókt af PSG og þá sérstaklega af Neymar. Það voru hinsvegar mun fleiri sem fóru í grasið eins og þeir væru stórslasaðir,“ sagði Klopp.

Jürgen Klopp vildi líka fá rautt spjald á miðjumanninn Marco Verratti fyrir brotið á Joe Gomez eftir 24 mínútna leik. Verratti slapp með gula spjaldið og hefði svo vel getað fengið annað gult spjald seinna í leiknum en slapp þá aftur.

„Allir hafa augu og allir sáu þetta. Það er hinsvegar ekki frétt nema ef að ég sé það. Þetta var rautt spjald að mínu mati en það breytir engu. Mér er sama. Ég var í góðri aðstöðu til að sjá þetta og þetta var ekki bara eins og hvert annað gult spjald,“ sagði Klopp.

Liverpool þarf nú að vinna tveggja marka sigur á Napoli í lokaleiknum á Anfield til að komast áfram í sextán liða úrslitin. Það er allt annað en létt verk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×