
Sendifulltrúastörf Rauða krossins í Afríku
Þá héldu þrír aðrir sendifulltrúar til starfa fyrir Rauða krossinn í október. Róbert Þorsteinsson og Kristján R. Kristjánsson, fóru til Sómalíu og Úganda til að sinna fjármálaúttekt á verkefnum sem Rauði krossinn á Íslandi styður við í löndunum. Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við ýmis verkefni í Sómalíu síðan 2011, þar á meðal stutt við uppbyggingu heimilis fyrir munaðarlausa, færanlegrar heilsugæslustöðvar og veitt neyðaraðstoð vegna þurrka. Í Úganda framkvæma Róbert og Kristján úttekt á neyðaraðstoð til flóttafólks frá Suður-Súdan og flóttafólks frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Í Úganda hefur Rauði krossinn á Íslandi stutt sérstaklega við sálrænan stuðning samhliða annarri neyðaraðstoð. Róbert hefur marga ára reynslu af sendifulltrúastörfum og sinnti meðal annars störfum í Sómalíu á síðasta ári og í Bangladess fyrr á þessu ári.
Halldór Gíslason hélt til Mósambík og Tansaníu um miðjan október í sína fjórðu ferð fyrir Rauða krossinn í tengslum við upplýsingatækniverkefni sem Rauði krossinn á Íslandi vinnur í Afríku í samvinnu við Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánann (IFRC). Verkefnið leitast við að aðstoða Rauða kross landsfélög í Afríku að tölvu- og internetvæðast eða við að brúa hið stafræna bil eins og það er stundum kallað.
Störf Halldórs og Kristjáns eru hluti af samstarfi Rauða krossins á Íslandi og Íslandsbanka, þar sem vinnuframlag þeirra er hluti af Hjálparhandaverkefni Íslandsbanka. Samstarfið byggir á því að sérfræðingar Íslandsbanka á ýmsum sviðum styðja við verkefni Rauða krossins með sérþekkingu sinni og aðstoð á vettvangi.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.