Vladimir Petkovic, landsliðsþjálfari Sviss, sagðist ekki taka mikið mark á frammistöðu Íslands í tapinu fyrir Sviss í september. Hann ber mikla virðingu fyrir íslenska liðinu og sagði Ísland óheppið að hafa ekki unnið Frakka.
Ísland tapaði 6-0 ytra fyrir Sviss í fyrsta leik liðanna í Þjóðadeildinni. Lykilmenn vantaði í lið Íslands og frammistaðan ein sú versta sem sést hefur frá liðinu í langan tíma.
„Það er ekki hægt að endurtaka leikinn sem við spiluðum gegn Íslandi, allir leikir eru einstakir. Ísland sýndi mjög lélega frammistöðu og það vantaði lykilmenn,“ sagði Petkovic á blaðmannafundi í Laugardalnum í dag. Liðin mætast öðru sinni annað kvöld á Laugardalsvelli.
„Við þurfum að sýna þannig frammistöðu á morgun að við eigum skilið að vinna.“
Petkovic horfði á Ísland spila við heimsmeistara Frakka á fimmtudag þar sem Ísland gerði 2-2 jafntefli eftir að hafa verið 2-0 yfir þar til á 86. mínútu.
„Þeir spiluðu mjög vel í 80. mínútur. Þeir fundu taktinn sem þeir voru með á HM og fyrir það. Frakkar náðu að setja pressu og skora tvö mörk, þetta voru óheppileg mörk. Ísland er í mjög góðu standi og við virðum andstæðinginn.“
Leikur Íslands og Sviss hefst klukkan 18:45 annað kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
