David Silva var hetja Manchester City gegn Hoffenheim á útivelli en hann skoraði sigurmark City fjórum mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 2-1.
Það var ekki liðin ein mínúta er fyrsta markið kom í Þýskalandi. Eftir að rangstöðugilda City klikkaði, slapp Ishak Belfodil einn gegn Ederson og kláraði færið vel.
Sex mínútur síðar var allt orðið jafnt. David Silva gaf stórbrotna sendingu á Leroy Sane sem gaf fyrir markið. Eftir darraðadans endaði boltann hjá Sergio Aguero sem skoraði afar auðvelt mark.
Staðan var 1-1 í hálfleik en um miðjan síðari hálfleik átti City að fá klára vítaspyrnu er Oliver Baumann, markvörður Hoffenheim, braut klárlega á Leroy Sane en slakur dómari leiksins Damir Skomina dæmdi ekkert.
City lét þetta ekki á sig fá. Eftir fyrirgjöf frá vinstri missti Justin Hoogma frá sér, David Silva hirti af honum boltann og kom honum í netið. Fögnuður City gífurlegur enda mikilvægur sigur í hús.
City er með þrjú stig og sigurinn afar mikilvægur eftir tap City gegn Lyon í fyrstu umferðinni. Hoffenheim er með eitt stig.
Næst mætir City Shaktar Donetsk á útivelli á meðan Hoffenheim spilar við Lyon á heimavelli.
