Þetta herma heimildir Vísis en fjárhæðin nemur milljónum króna. Heimir og forsvarsmenn KSÍ greinir á um hvernig eigi að túlka samning þjálfarans við sambandið hvað varðar árangurstengdar greiðslur.
Heimir lét af störfum sem landsliðsþjálfari að loknu heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar þar sem karlalandsliðið var í fyrsta skipti á meðal keppenda.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir engan ágreining um málið af hans hálfu. Það eigi einfaldlega eftir að fara yfir málin og ganga frá þeim.
„Það er í rauninni ekkert að tjá sig um,“ sagði Guðni um stöðu mála núna.
Auk Heimis sjá Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari Heimis hjá landsliðinu, og KSÍ samninga um bónusgreiðslur vegna HM í ólíku ljósi.

Bónusgreiðslurnar hafa valdið fjaðrafoki hjá KSÍ í gegnum tíðina. Bæði fengu leikmenn kvennalandsliðsins lægri greiðslur fyrir árangur í leikjum lengi vel en því var breytt í upphafi árs. Þá voru deilur innan karlalandsliðsins með skiptingu bónusanna í kringum árangurinn í undankeppni Evrópumótsins 2016.
Heimir Hallgrímsson hefur verið án þjálfarastarfs síðan hann lét af störfum hjá landsliðinu í sumar. Hann sagði á blaðamannafundi í sumar að hann ætlaði að gefa sér vænan tíma til að meta stöðuna. Ekki náðist í Heimi við vinnslu fréttarinnar.