Örn er sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar á safninu. Hann sér um að unnið sé skipulega að því að setja efni þess á alnetið. Nefnir sem dæmi síðuna timarit.is. „Við náum að halda utan um alla íslenska útgáfu og setja á netið. Aðgangurinn er frír og það er sérstakt á heimsvísu. Erlendis ná þjóðbókasöfn milljónasamfélaga ekki sama árangri og þar þarf almenningur að borga fyrir aðgang.“

Allar íslenskar bækur, útgefnar frá 1540 til 1844, sem eru í eigu safnsins, er búið að mynda, að sögn Arnar og nú er verið að mynda erlendar ferðabækur. „Við eigum hér þrjú stór söfn erlendra ferðabóka, mjög spennandi. Öll Íslandskort sem hafa verið gefin út eru aðgengileg á netinu og smám saman erum við að skrá öll handrit rafrænt og mynda þau,“ upplýsir hann.
Ekki er allt upp talið því Örn bendir á að á vefnum hljodsafn.landsbokasafn.is sé mikið efni komið inn. „Fyrsti íslenski geisladiskurinn var gefinn út 1986 – Bubbi Morthens – og geisladiskar hafa ekki endalausan líftíma. Hér er verið að færa þá alla inn á stafrænt form og sama er að segja um kasetturnar.“