Skoðun

Lifi byltingin!

Óttar Guðmundsson skrifar
Ég var í stórafmæli Ragnars Stefánssonar vinar míns á dögunum. Hann var á liðinni öld þekktasti foringi vinstrisinnaðra mótmælenda sem börðust fyrir betra samfélagi. Ragnar og félagar hans mótmæltu Nató, hernaðarbrölti Bandaríkjanna og undirlægjuhætti íslenskra stjórnmálamanna. Hann var iðulega handtekinn fyrir skoðanir sínar en lét aldrei bilbug á sér finna.

Í afmælinu var margt gamalla baráttufélaga Ragnars sem tóku þátt í margvíslegum aðgerðum. Þegar afmælissöngurinn hafði verið sunginn réttu menn kreppta hnefa til himins og sungu Nallann. Ræðumenn hylltu Ragnar fyrir stefnufestu hans og mannkosti en einhverjir spurðu hverjir mundu taka við fána byltingarinnar.

Svarið kom fyrr en nokkurn grunaði.

Strax daginn eftir afmælið tóku Vinstri græn upp óvænta en jafnframt harðsnúna baráttu gegn íhaldsöflunum. Borgarfulltrúi flokksins gerði sér lítið fyrir og ullaði á Sjálfstæðismenn í Borgarstjórn. Það verður að segjast að þetta er frumleg og nýstárleg baráttuaðferð og kannski nær tíðarandanum en blóðug slagsmál okkar Ragnars og félaga við lögregluna i den.

Nú breiðist byltingin út um landið og miðin. Vinstri græn munu ulla á auðvaldið í mótmælaskyni á fundum og torgum og ekki hvað síst á netinu. Þetta gæti gjörbreytt íslensku samfélagi og íhaldsöflin munu væntanlega kikna undan þessu samstillta ulli róttæklinganna. Lifi byltingin!




Skoðun

Sjá meira


×