Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sagði í gær að rúmlega 3.200 ólöglegar byggingar á Attíkuskaga yrðu rifnar niður hið snarasta. Byggingarnar hafa verið mikið í umræðunni á Grikklandi frá því skógareldar á svæðinu kostuðu 91 lífið í júlí og hefur ríkisstjórnin sagt að byggingarnar hafi torveldað flótta fólks af svæðinu.
„Hver sú bygging sem stofnar lífi fólks í hættu verður rifin. Það er skylda okkar við þá látnu, og enn fremur við þá sem enn lifa,“ sagði forsætisráðherrann í gær.
Byggingarnar sem um ræðir eru margar áratugagamlar. Samkvæmt BBC eru þær jafnan byggðar í leyfisleysi. Mörgum árum eftir byggingu öðlast þær þó friðhelgi eftir samkomulagi við ríkið.
Gríska ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að bregðast seint og illa við hamförunum. Tsipras brást að hluta við þeirri gagnrýni er hann sagði í yfirlýsingu á sunnudag að yfirmenn lögreglu og slökkviliðs á svæðinu hefðu verið reknir. Á föstudag sagði svo ráðherra almannavarna af sér.

