Erlent

Kínverskur viðskiptajöfur hrapaði til dauða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Wang Jian stýrði einu af stærstu fyrirtækjum heims
Wang Jian stýrði einu af stærstu fyrirtækjum heims Vísir/AFP
Stjórnarformaður kínverska risafyrirtækisins HNA lést eftir fall í borginni Bonnieux í suðurhluta Frakklands. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að um slys hafi verið að ræða og að hinn 57 ára gamli Wang Jian hafi verið í Frakklandi í viðskiptaferð.

Haft er eftir frönsku lögreglunni á vef breska ríkisútvarpsins að Wang hafi dottið aftur fyrir sig þegar hann stillti sér upp á vegg fyrir myndatöku. Fallið er talið hafa verið um 15 metrar. Fjöldi vitna varð að slysinu og hafa þau útilokað að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Wang er sagður hafa leikið lykilþátt í því að gera HNA að því stórveldi sem það er, en því er lýst sem einu af stærstu fyrirtækjum heims. HNA á stóra hluti í öðrum stórfyrirtækjum: t.a.m. hótelkeðjunni Hilton, Deutsche Bank ásamt því að eiga fjölda skýjakljúfa í Lundúnum.

Á heimasíðu HNA, sem er grá vegna andlátsins, er Wang minnst sem „einstaklega hæfs leiðtoga og fyrirmyndar“ og segir þar jafnframt að hugsjónir hans og gildi muni lifa áfram í hjörtum þeirra sem fengu að kynnast honum. Fyrirtækið vinnur nú í því að minnka eignasafnið sitt en það er sagt hafa safnað upp gríðarlegum skuldum meðfram miklum vexti síðustu ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×